Gvæjana (opinbert heiti: Samvinnulýðveldið Gvæjana) er land á norðurströnd Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela í vestri, Súrínam í austri, Brasilíu í suðri, og strandlengju við Atlantshafið í norðri. Gvæjana er oft fremur talið til Vestur-Indía en Suður-Ameríku vegna náinna tengsla við önnur enskumælandi Karíbahafslönd. Gvæjana er um 215.000 ferkílómetrar að stærð og er því þriðja minnsta fullvalda ríkið á meginlandinu, á eftir Úrúgvæ og Súrínam.
Landið er vesturhluti Gvæjanahálendisins, norðan við Amasónfljót og austan við Orinoco-fljót. Gvæjana merkir „land hinna mörgu vatna“. Helstu vatnsföll í Gvæjana eru árnar Essequibo-fljót, Berbice-fljót og Demerara-fljót. 80% af landsvæði Gvæjana eru vaxin frumskógi. Landið var byggt frumbyggjum þegar Hollendingar lögðu svæðið fyrst undir sig á 16. öld. Bretar tóku yfir árið 1796 þótt Hollendingar næðu landinu aftur eitt ár 1802-1803. Bretar ráku þar plantekrubúskap fram á miðja 20. öld. Landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1966 og varð formlega lýðveldi innan Breska samveldisins árið 1970.
Landið er eina Suður-Ameríkuríkið þar sem enska er opinbert tungumál. Lítill minnihluti talar frumbyggjamál en kreólaútgáfa af ensku er útbreidd. Bandalag 15 Karíbahafsríkja, CARICOM, er með höfuðstöðvar í Georgetown í Gvæjana. Árið 2008 tók landið þátt í stofnun Bandalags Suður-Ameríkuríkja.